Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdarstjóri KSÍ og núverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar hyggst reisa knatthöll á Ólafsfirði á næsta ári. Hefur málið verið samþykkt í bæjarstjórn.
„Í samræmi við samþykkt um breytingu á „Stefnumótun og framtíðarsýn íþróttamála í Fjallabyggð 2023 – 2035″ leggur bæjarstjóri til að hafist verði handa við undirbúning á útboði á 72×50 m knatthúsi í Ólafsfirði, breytingu á skipulagi sem nauðsynlegt er og að heimild verði gefin til fjármögnunar á verkefninu með lántöku á hagstæðum kjörum,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkiti samhljóða með 7 atkvæðum tillögu um að hafist verði handa við undirbúning á útboði á 72 x 50 m knatthúsi í Ólafsfirði, breytingu á skipulagi sem nauðsynleg er og veitir bæjarstjóra heimild til þess að óska eftir tilboðum í lánveitingu til að fjármagna verkefnið.
„Bæjarstjórn leggur áherslu á að nauðsynleg gögn til útboðs, breytingu á skipulagi og til lántöku verði hraðað þannig að hægt verði að setja verkefnið af stað með það að markmiði að það verði framkvæmt á árinu 2026,“ segir einnig.
Ljóst er að það væri mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið að fá knatthús sem bætir aðstöðu í sveitarfélaginu til mikilla muna.