Ryan Reynolds hefur nú opinberað söguna á bak við þá frægu kvöldstund Channing Tatum með leikmönnum Wrexham, sem endaði með því að Hollywood-leikarinn baðst afsökunar.
Tatum heimsótti Norður-Wales í desember síðastliðinn til að taka upp auglýsingu fyrir SToK Cold Brew Coffee styrktaraðila Wrexham, sem Reynolds á ásamt Rob McElhenney.
Þar skemmti hann sér konunglega, fór á leik liðsins gegn Cambridge United og mætti síðan í afmæli miðjumannsins Elliot Lee.
Reynolds rifjaði atvikið upp í viðtali hjá Jimmy Kimmel, þar sem hann birti mynd af Tatum berum að ofan ásamt leikmönnunum Ollie Palmer og Steven Fletcher. Hann sagði: „Channing kom og var næstum búinn að drepa allt liðið. Eftir æfingu fyrir auglýsinguna sagði hann: ‘Ég ætla að fara með strákunum út.’ Síðan heyrðist ekkert.“
Reynolds fékk þá skilaboð klukkan 4:30 um nóttina: „Úbbs. Ég hafði aðeins of gaman með strákunum… fyrirgefðu.“ Hann bætti við:
„Hann breytti liðinu í Magic Mike. Fór herbergi úr herbergi og dró þá út í velskt næturlíf.“
Magic Mike er þekkt kvikmynd þar sem Tatum lék strippara og vakti þar mikla athygli.