Juliana Lopez virtist eiga bjarta framtíð fyrir höndum fyrir tæpum áratug. Hún var vinsæl sjónvarpskona, hafði unnið Ungfrú Antioquia fegurðarsamkeppnina, stefndi á Ungfrú Heimur keppnina í Medellín og spilaði knattspyrnu með liðinu Divas del Futbol í heimalandi sínu, Kólumbíu.
Allt fór þó á versta veg þegar hún var handtekin árið 2015 á Guangzhou Baiyun flugvellinum í Kína með 610 grömm af kókaíni falið í fartölvu. Þá var hún aðeins 21 árs gömul.
Kína er þekkt fyrir að beita ströngum viðurlögum í eiturlyfjamálum og óttuðust margir að hún gæti fengið dauðarefsingu. Fékk hún þó 15 ára fangelsisdóm.
Nú er Juliana 31 árs og hefur setið í fangelsi fjarri fjölskyldu sinni í áratug. Fyrrverandi kærasti hennar, Juan Esteban Marín, fékk einnig dóm.
Í vikunni var birt bréf sem Juliana sendi móður sinni, Nubiu Sarrazola, þar sem hún lýsir sársauka sínum og söknuði.
„Elsku mamma mín, ég sakna þín meira en nokkurs annars í heiminum,“ skrifaði hún til að mynda.
Juliana segist verja tíma sínum í nám og vinnu innan fangelsisins. „Ástandið er orðið sífellt meira kvíðavaldandi, mikið vinnuálag. Það eru próf í hverjum mánuði, þannig að það bætist líka við pressan frá náminu.“
Samkvæmt kínverskum lögum gæti Juliana fengið skilorðsbundna lausn á næsta ári fyrir góða hegðun og myndi þá stytta dóm sinn um fjögur ár. Hún hefur þó gefið í skyn að hún snúi ekki aftur til Kólumbíu, þar óttist hún um líf sitt.
Móðir hennar, Nubia, flutti til Kína til að vera nálægt dóttur sinni. Hún fór frá öllu í Kólumbíu, fann sér vinnu og leigir íbúð nálægt fangelsinu. Hún getur þó aðeins hitt dóttur sína einu sinni í mánuði í hálftíma, nema Juliana vinni sér inn lengri heimsóknir með góðri hegðun.
Handtaka hennar vakti mikla athygli í Kólumbíu á sínum tíma, enda var hún ung, efnileg og virtist eiga frama bæði í knattspyrnu og fyrirsætustörfum. Málið var einnig vitundavakning um hættuna sem ungt fólk stendur frammi fyrir þegar það er dregið inn í alþjóðleg fíkniefnanet.
Um 50 Kólumbíumenn eru nú í haldi í Kína vegna eiturlyfjamála.