Everton hefur mikinn áhuga á að fá brasilíska framherjann Gabriel Jesus frá Arsenal og er félagið reiðubúið að borga 30 milljónir punda, sem er það sem Skytturnar vilja fyrir leikmanninn.
Þetta kemur fram í ítölskum miðlum, en hinn 28 ára gamli Jesus hefur verið orðaður við Roma þar í landi. Þar segir að Everton leiði nú kapphlaupið um kappann.
Jesus er meiddur eftir að hafa slitið krossband í janúar og gengist undir aðgerð. Gert er ráð fyrir að hann geti snúið aftur eftir áramót, en hann er ekki lengur í framtíðarplönum Mikel Arteta eftir komu Viktor Gyökeres í sumar.
Arsenal vill losna við leikmanninn fyrr en síðar og gæti hann því farið til Everton strax í janúar.