Viktor Helgi Benediktsson leikmaður HK segir frá raunum sínum og árangri í færslu á Facebook. Hann var á dögunum kjörinn knattspyrnumaður HK.
Verðlaunin fékk Viktor þrátt fyrir að hafa spilað aðeins fimm leiki en hann hefur gengið í gegnum ýmislegt undanfarið. Þessi öflugi knattspyrnumaður fór í aðgerð á hjarta síðasta vetur og tók það hann nokkurn tíma að ná fyrri takti.
Hann fékk svo verðlaunin frá HK um helgina og skrifar. „Virkilega mikill heiður og forréttindi – og eitthvað sem maður átti alls ekki von á,“ skrifar Viktor.
„Tímabilið byrjaði þannig að ég var nær því að leggja skóna á hilluna en nokkuð annað, eftir þær aðgerðir og vesen sem ég gekk í gegnum í byrjun árs. En með hverjum degi og hverri æfingu byrjaði ég að muna hvers vegna ég elska þessa íþrótt og hvers vegna maður hefur nennt þessu í allan þennan tíma yfir höfuð. Á ég HK og öllu því frábæra fólki sem tengist klúbbnum þar mikið að þakka – bæði leikmönnum, þjálfurum, starfsfólki og stuðningsmönnum.“
Viktor segist ávallt hafa lgt mikið upp úr því að vera liðsmaður og það skipti miklu máli í hópíþrótt. „Þessi heiður kemur klárlega ekki útaf mögnuðum árangri innan vallar hjá mér í ár og hefur þetta því í raun enn meiri þýðingu fyrir mig. Ég hef ávallt verið mikill talsmaður þess að liðsandi og samvinna utan vallar skipti gríðarlega miklu máli í fótbolta, og það snertir mig verulega að fá viðurkenningu fyrir þann hluta leiksins. Þrátt fyrir að tímabilið hafi ekki endað eins og við vildum, með sæti í Bestu Deildinni, þá er það bara upp og áfram – og tökum það að ári.
Meiðsli hafa hrjáð Viktor síðustu ár en hann horfir bjartsýnn til framtíðar. „Nú er ég vonandi í fyrsta sinn í fimm ár að ná heilu undirbúningstímabili án meiðsla og get ég ekki beðið eftir því að leggja allt mitt af mörkum – ekki bara utan vallar heldur einnig innan vallar að þessu sinni.“