Breiðablik mætir Lausanne frá Sviss í Sambandsdeildinni á fimmtudag en liðið hélt út í gær og fær góðan undirbúning ytra.
Gengi Breiðabliks í deildinni hefur ekki verið gott og liðið ekki unnið leik þar í rúma tvo mánuði.
Það er orðið ansi ólíklegt að Blikar nái Evrópusæti á næstu leiktíð sem er högg í rekstur félagsins en rætt var um stöðuna í Íþróttavikunni sem kom út í gær.
„Þeir eru búnir að klukka sig út úr þessu og þá er enginn Evrópukeppni á næsta ári. En það eru jákvæð tíðindi eftir helgi, Anton Logi spilar í fyrsta sinn í langan tíma og Þorleifur Úlfarsson spilar sinn fyrsta leik,“ sagði Hörður Snævar Jónsson ritstjóri 433.is eftir leik Breiðabliks og FH um helgina sem lauk með 1-1 jafntefli.
Hörður segir að Blikar geti hins vegar sótt sér mikla fjármuni með því að vinna leiki í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Liðið á þrjá heimaleiki sem gætu verið góð tækifæri til að ná sér í peninga.
„Þeir eru að fara inn í Sambandsdeildina og þar þurfa þeir bara að vinna inn þá peninga sem tapast á næsti ári, að vera ekki Í Evrópu. Það eru peningar í boði, það eru 400 þúsund evrur fyrir hvern sigur. Vinni þeir tvo leiki þá eru það einhverjar 120 milljónir, það er sá peningur sem þeir hefðu mögulega náð í Evrópu á næsta ári.“
Breiðablik hefur gert ráð fyrir Evrópupeningum í rekstur sinn síðustu ár og þarf því á peningum að halda til að geta haldið sjó með leikmannahóp sinn.
„Þeir hefðu ekki fengið þessa leið meistaranna sem kemur þér langt, ef þeir vinna tvo leiki þá geta þeir unnið upp svolítið af þeim peningum sem tapast með því með að ná ekki Evrópu. Þeir geta þá haldið áfram að mæta með samkeppnishæft lið til leiks.“