Wayne Rooney hefur gagnrýnt þýska miðjumanninn Florian Wirtz og segir hann rýra jafnvægið hjá Liverpool, þar sem leikmaðurinn hefur enn ekki náð sér á strik í ensku úrvalsdeildinni.
Wirtz kom til Englands með miklar væntingar á herðum sér eftir 116 milljón punda metflutning frá Bayer Leverkusen í sumar. Þar var hann lykilmaður í liði sem vann Þýskalandsmeistaratitilinn án taps tímabilið 2023–24.
Frammistaðan í Englandi hefur þó verið undir væntingum. Hann byrjaði á bekknum í Merseyside-slagnum gegn Everton og nýtti ekki tækifærið þegar hann fékk byrjunarliðssæti gegn Crystal Palace. Þar klúðraði hann dauðafæri og var tekinn af velli á 74. mínútu, enn án marks eða stoðsendingar í átta leikjum.
Rooney, fyrrverandi sóknarmaður Manchester United, sagði í viðtali. „Það hefur verið erfitt fyrir hann. Hann er hæfileikaríkur, en ég sé ekki hvar hann passar inn í þetta lið. Þeir eru með Salah og hafa keypt heila nýja framlínu. Hann hefur ekki náð að skara fram úr,“ sagði Rooney
„Mér finnst hann rýra jafnvægið í spilamennsku Liverpool, en hann er frábær leikmaður og mun vafalaust ná sér á strik, hann hefur bara byrjað hægt.“
Rooney telur að eins og staðan sé núna eigi Dominik Szoboszlai alltaf að byrja á undan Wirtz í þeirri stöðu sem hann vill helst spila.