Erling Haaland, framherji Manchester City, hefur opinberað hvernig samband hans og kærustunnar Isabel Haugseng Johansen hófst og það var hún sem tók fyrsta skrefið.
Í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK, sem verður hluti af viðtalsseríunni A-laget, svarar Haaland fjölbreyttum og persónulegum spurningum. Þar á meðal eru spurningar um hárvörur, dauðann, Pep Guardiola og kvöldmat með Köngulóarmanninum.
Í stuttu myndbroti úr viðtalinu var Haaland spurður út í hvernig sambandið við Isabel byrjaði. Þar greinir hann frá því að hún hafi haft frumkvæðið: „Hún sendi mér skilaboð,“ sagði Haaland. „Við spiluðum bæði með Bryne.“
„Hún var sú sem hafði augastað á mér. Ég var ekki sá sem hafði augastað á henni.“
Haaland og Isabel, sem er þremur árum yngri en hann, kynntust í yngri flokkum Bryne, þar sem Haaland hóf feril sinn aðeins fimm ára og dvaldi í rúmlega áratug.
Þau hófu samband sitt þegar Haaland lék með Borussia Dortmund, og Isabel heimsótti hann reglulega til Þýskalands. Síðan þá hefur hún oft sést með honum, meðal annars í titilveislu City.
Parið eignaðist sitt fyrsta barn saman í desember síðastliðnum.