Leikmenn Manchester United eru sagðir slegnir yfir gengi liðsins í byrjun tímabils eftir 3-1 tap gegn Brentford um helgina, sem var þriðja tapið í deildinni á tímabilinu. The Sun fjallar um málið.
Ruben Amorim, stjóri liðsins, hefur aðeins náð 34 stigum úr 33 deildarleikjum og unnið níu leiki á meðan hann hefur verið í starfi. United er sagt skoða mögulega arftaka hans, þar á meðal eru Oliver Glasner, Andoni Iraola og Fabian Hurzeler.
United hefur varið yfir 250 milljónum punda í sjö leikmenn síðan Amorim tók við, en liðið hefur aðeins unnið tvo af fyrstu sex deildarleikjum tímabilsins og markatala liðsins er -4. Vont varð svo verra þegar liðið féll úr enska deildarbikarnum gegn Grimsby í byrjun tímabilsins.
Leikmenn töldu stöðuna á liðinu góða eftir undirbúningstímabilið og eru steinhissa á því hversu illa gengur, ef marka má umfjöllun The Sun.
Næstu leikir United eru gegn Sunderland, Liverpool og Brighton.