Fenway Sports Group (FSG), eigendur Liverpool, hafa ákveðið að greiða fjölskyldu Diogo Jota laun hans út samningstímann eftir andlát leikmannsins.
Jota, sem var 27 ára, lést ásamt bróður sínum, André Silva, í bílslysi á norður-Spáni þann 3. júlí, aðeins ellefu dögum eftir að hann giftist æskuástinni sinni, Rute Cardoso. Hann átti þrjú börn með eiginkonu sinni og samningur hans við Liverpool átti tvö ár eftir, metinn á um 140 þúsund pund á viku.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti í viðtali við Ally McCoist á TNT Sport að FSG myndi standa við allar greiðslur til ekkjunnar og barnanna. „Eigendur eru oft gagnrýndir, líkt og stjórar,“ sagði Slot.
„En það hvernig þeir brugðust við þessari hörmulegu stöðu að greiða fjölskyldunni alla samningsupphæðina er óvenjulegt. Margir halda að þetta sé sjálfsagt, en það er það ekki í fótbolta.“
Slot hrósaði einnig stuðningsmönnum og leikmönnum Liverpool fyrir framkomu sína eftir slysið. „Það var ótrúlegt að sjá fjölda blóma og minningarathafnir.“