Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að Cole Palmer sé að jafna sig eftir nárameiðsli sem héldu honum frá bæði sigri Chelsea gegn Fulham og landsleikjum Englands.
Chelsea heimsækir Brentford í ensku úrvalsdeildinni á morgun og óvíst er hvort Palmer verði með.
„Cole tók þátt í æfingu í gær í fyrsta skipti, þó ekki alla æfinguna,“ sagði Maresca á fréttamannafundi fyrir leikinn á morgun.
„Við eigum eina æfingu eftir síðar í dag og við ætlum að prófa hann, sjá hvort hann sé klár annars verður hann frá á morgun.“
„Hann er að jafna sig eftir meiðsli. Þetta snýst ekki um að stjórna álaginu á hann, heldur einfaldlega að hann sé að ná sér. Þegar hann verður klár í leik, þá þurfum við auðvitað að stýra honum vel út af leikjaálaginu.“
Palmer hefur verið lykilmaður fyrir Chelsea en er enn í kapphlaupi við tímann til að ná næsta leik.