Það hefur mikið verið rætt um tilhneigingu Óskars Hrafns Þorvaldssonar þjálfara KR til að gagnrýna leikstíl andstæðinga sinna í Bestu deild karla í sumar. Hann virðist meðvitaður um þá umræðu miðað við viðtal sem hann fór í við Sýn í gær.
KR er í hörkufallbaráttu þrátt fyrir að hafa sýnt fínar rispur í sumar. Óskar Hrafn er þekktur fyrir það að spila skemmtilegan og oft á tíðum hugrakkan fótbolta en hefur ekki alltaf verið sáttur við það hvernig andstæðingarnir spila.
Eftir 1-2 tap gegn Stjörnunni í gær, þar sem KR var að flestra mati betri aðilinn, spurði Ágúst Orri Arnarson fréttamaður Sýnar hann út í það hvort hann yrði sáttur með að vinna í kjölfar spilamennsku eins og þeirrar sem Stjarnan bauð upp á í gær.
„Ég veit hvað þú ert að reyna Ágúst. Ég hef alveg skilning á því að þú ert að reyna að fá mig til að segja að ég myndi ekki ganga stoltur frá borði,“ svaraði Óskar og hélt áfram.
„Ég er búinn að tjá mig nokkrum sinnum um leikstíl andstæðinganna. Þegar maður tapar er eins gott að segja sem minnst en ég held að allir þeir sem hafa fylgst með fótbolta og heyrt mig tala viti svarið.
Tilgangurinn helgar meðalið. Þeir eru á góðum stað í deildinni og gera það sem þeir telja að þurfi til að byggja upp og þróa sitt lið. Við förum aðeins aðra leið að því en ég ætla ekki að standa hér, horfa framan í alla og segja að mín leið sé endilega betri. Hún er bara öðruvísi,“ sagði Óskar einnig, en Stjörnumenn eru í toppbaráttunni.