Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, var í gær úrskurðaður í fjögurra leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ fyrir hegðun sína í síðasta leik gegn Magna. Uppákoman er til á upptöku, sem má sjá hér neðar.
Baldvin fékk tvö gul spjöld í leiknum og þar með rautt. Lét hann í kjölfarið ljót ummæli falla, bæði yfir leiknum og eftir hann. Árbær fékk þá 85 þúsund króna sekt vegna brottrekstrar hans og fjölda refsistiga sem liðið vann sér inn í leiknum.
Baldvin gaf út yfirlýsingu vegna málsins. Þar harmar hann hegðun sína en gagnrýnir jafnframt dómarateymið fyrir aðdragandann að seinna spjaldinu og segir þá fara með ósannindi. Gagnrýnir hann sérstaklega aðstoðardómara 1 í leiknum, Elías Baldvinsson.
Þegar upptakan hefst virðist Baldvin vera að ræða við leikmann sinn. Þá strax var greinilega mikill hiti í leiknum, en Baldur Páll Sævarsson í liði Árbæjar hafði skömmu áður fengið sitt annað gula spjald.
„Má ég fokking tala við leikmanninn minn?“ spurði Baldvin Elías áður en hann sagði mönnum á varamannabekk sínum að þegja, ansi snaggaralega, að beiðni aðstoðardómarans eftir því sem þjálfarinn segir í yfirlýsingu sinni. Síðan fékk hann reisupassann.
„Eruði steiktir? Ertu að gefa mér rautt spjald fyrir að segja þeim að þegja?“ öskraði Baldvin þá. „Nei, fyrir að koma í andlitið á mér öskrandi,“ sagði dómarinn þá.
„Þú komst í andlitið á mér!“ sagði Baldvin þá og hélt áfram. „Eruði í alvörunni þroskaheftir?“ Viðhafði þjálfarinn fleiri ansi ljót ummæli. „Mig langar í alvöru að lemja þig!“ sagði hann til að mynda.
Myndband af þessu má sjá hér að neðan, en þess má geta að leikurinn var liður í 3. deild karla og lauk honum með 2-3 sigri Magna.