Paris Saint-Germain er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir sigur á Arsenal í undanúrslitum í dag.
PSG leiddi 1-0 eftir fyrri leikinn í London og því í góðri stöðu fyrir kvöldið. Arsenal átti leikinn fyrri hluta fyrri hálfleiks en tókst ekki að nýta færin sín. Var þeim svo refsað þegar Fabian Ruiz kom PSG yfir á 27. mínútu.
Staðan í hálfleik var 1-0 og 2-0 samanlagt. Arsenal tókst ekki að halda pressunni áfram í seinni hálfleiknum. Þegar um 20 mínútur lifði leiks fékk PSG afar umdeilda vítaspyrnu sem Vitinha klikkaði þó úr.
Hins vegar fór Achraf Hakimi langt með að klára leikinn fyrir heimamenn með marki skömmu síðar. Bukayo Saka minnkaði muninn á 76. mínútu en nær komst Arsenal ekki.
Lokatölur í kvöld 2-1 og 3-1 samanlagt. PSG mætir Inter í úrslitaleiknum í Munchen þann 31. maí.