Al-Hilal í Sádi-Arabíu hefur gríðarlega mikinn áhuga á að fá Bruno Fernandes, fyrirliða Manchester United, í sumar.
Fernandes hefur, eins og oft áður, verið ljós punktur í slöku United liði á þessari leiktíð og er hann algjör lykilhlekkur á Old Trafford.
Það er nóg til í Sádí, eins og sést hefur á félagaskiptamarkaðnum undanfarin ár, og samkvæmt Fabrizio Romano er Portúgalinn efstur á óskalista Al-Hilal.
Hefur félagið haft augastað á Fernandes í tvö ár en engar viðræður hafa farið fram. United hefur augljóslega lítinn áhuga á að selja Fernandes, sem er samningsbundinn við félagið í tvö ár til viðbótar.
United er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en getur að einhverju leyti bjargað tímabilinu með því að vinna Evrópudeildina, þar sem liðið er komið með annan fótinn í úrslitaleikinn.
Al-Hilal er eitt stærsta félag Sádi-Arabíu og með menn eins og Aleksandar Mitrovic, Joao Cancelo, Ruben Neves og Kalidou Koulibaly innanborðs.