Aron Einar Gunnarsson hefur framlengt samning sinn við Al-Gharafa í Katar um eitt ár. Félagið staðfestir þetta.
Aron var í byrjunarliði liðsins í bikarnum í kvöld og hefur svo framlengt samning sinn.
Búist er við að Aron verði í stærra hlutverki hjá Al-Gharafa á næstu leiktíð en hann var fenginn til liðs við félagið síðasta haust.
Þá hafði Al-Gharafa fyllt öll pláss fyrir erlenda leikmenn en Aron gat spilað í Meistaradeild Asíu og gerði vel.
Aron er 36 ára gamall en nú er ljóst að hann tekur eitt ár til viðbótar í Katar en áður lék hann með Al-Arabi þar í landi.
Aron hefur átt magnaðan feril en hann fór í atvinnumennsku árið 2006 og hefur spilað yfir 100 A-landsleiki fyrir Ísland.