Andy Robertson, bakvörður Liverpool, hefur grínast með það að hann vilji fá sömu meðferð og Mohamed Salah og Virgil van Dijk á næsta ári.
Salah og Van Dijk eru báðir búnir að krota undir nýjan samning við Liverpool en framtíð þeirra var lengi í lausu lofti – samningur beggja leikmanna átti að renna út í sumar.
Stuðningsmenn, sérfræðingar og blaðamenn gerðu lítið annað en að ræða framtíð þessara leikmanna sem hafa verið stórkostlegir fyrir Liverpool í vetur en liðið hefur tryggt sér enska meistaratitilinn.
Robertson er einnig mikilvægur hluti af liði Liverpool en hann verður samningslaus 2026 og á því aðeins eitt ár eftir af samningnum.
Skotinn var þó að margra mati ekki upp á sitt besta í vetur og hafa menn eins og Jamie Carragher kallað eftir því að félagið kaupi nýjan bakvörð í sumar.
,,Ég á aðeins eitt ár eftir af mínum samningi svo ég vona að þið getið hjálpað mér í að skapa sömu umræðu og var í kringum Mo og Virgil. Kannski gætir þú [Carragher] hætt að orða félagið við aðra vinstri bakverði!“ sagði Robertson.
,,Nei, nei, ég hef átt átta mögnuð ár hjá félaginu og á ennþá ár eftir. Ég er ekki eins ungur og áður en ég elska þetta félag og hef upplifað frábæra tíma svo við sjáum hvað framtíðin ber í skauti sér.“
,,Ég trúi því enn að ég geti skilað mínu á vellinum og tel að ég hafi sannað það á þessu tímabili. Vonandi get ég verið hér í mörg ár til viðbótar.“