Kylian Mbappe og hans fjölskylda eignaðist 80 prósent hlut í franska félaginu Caen síðasta sumar og borgaði 20 milljónir evra fyrir þann eignarhlut.
Stuðningsmenn Caen eru ekki hrifnir af Mbappe fjölskyldunni en liðið féll úr næst efstu deild Frakklands á þessu tímabili í fyrsta sinn í 41 ár.
Mamma Mbappe, Fayza Lamari, vildi fljótt selja hluta fjölskyldunnar eftir mikla gagnrýni og hatur en franski landsliðsmaðurinn var á öðru máli.
Lamari viðurkennir að það væri ekki ásættanlegt ef þau selja sinn hlut í dag og hefur ákveðið að standa með syni sínum í þessu verkefni.
,,Ég hef sagt við Kylian að Caen ætti okkur ekki skilið og að við þyrftum að fara þegar þau vildu okkur ekki,“ sagði mamman.
,,Hann hefur aldrei viljað yfirgefa verkefnið. Hann náði að sannfæra mig. Í dag væri óheiðarlegt af okkur að yfirgefa félagið.“