Kári Árnason sérfræðingur Stöð2 Sport segir að Age Hareide verði að finna sitt par í hjarta varnarinnar og það sé líklega ástæða þess að Daníel Leó Grétarsson og Hjörtur Hermannsson byrji aftur saman.
Hjörtur og Daníel voru öflugir á föstudag og byrja gegn Tyrkjum klukkan 18:45.
Lætin í Tyrklandi eru mikil fyrir leik og þau þekkir Kári vel. „Það er ærandi, þú heyrir ekki mælt mál en það þagnar fljótt í þessu ef við náum að skora. Vonandi náum við að skora snemma og lifum á því. Ef við erum að fá á okkur mörk snemma þá verður þetta mjög erfitt,“ sagði Kári á Stöð2 Sport.
Hareide gerir þrjár breytingar á byrjunarliði sínu. „Þetta er sama uppstilling en Andri Lucas kemur inn og tveir nýir bakverðir. Hann hefði alveg getað sett Gulla sem hafsent, ég held að hann ætli að reyna á þetta hafsenta par. Sverrir er mikið meiddur og Gulli er að komast á aldur og verður meira meiddur en hann hefur verið.“
„Hann verður bara að finna par sem er í formi og spili sig þá saman og verði betri.“