Stuðningsmenn Real Madrid virðast þónokkrir hafa áhyggjur af stöðu framherjans Kylian Mbappe.
Mbappe gekk í raðir Real í sumar en hann hefur aðeins skorað eitt mark úr opnum leik í fimm leikjum.
Margir eru á því máli að Mbappe eigi ekki að spila sem nía Real og að Carlo Ancelotti þurfi að færa franska landsliðsmanninn á kantinn.
Mbappe komst á blað í gær í 2-0 sigri á Real Sociedad en það mark kom af vítapunktinum líkt og gegn Real Betis þann 1. september.
Frakkinn öflugi skoraði þó úr opnum leik í sigrinum á Betis og fékk fína einkunn fyrir frammistöðu sína í þeirri viðureign.
Mbappe hefur þó aðeins skorað í tveimur af síðustu sjö leikjum sínum fyrir Real og franska landsliðið en hann er vanur því að raða inn mörkum fyrir Paris Saint-Germain.
Mbappe er 25 ára gamall og er talinn einn besti sóknarmaður heims en hann hefur því miður ekki náð að standast væntingar allra hingað til á tímabilinu.