Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, hefur tjáð sig um það sem gerðist í miðri viku er hans menn töpuðu 1-0 gegn Bournemouth.
Eftir leik voru nokkrir stuðningsmenn Tottenham sem öskruðu í átt að Postecoglou sem ákvað að svara fyrir sig.
Ástralinn lofar því að hann muni ekki hlusta á ráð annarra og ætlar að halda sínum leikstíl þó úrslitin séu ekki alltaf það sem fólk vonast eftir.
Tottenham fær erfitt verkefni í úrvalsdeildinni í dag en liðið tekur á móti grönnunum í Chelsea.
,,Nei það sem gerðist er að þeir töldu að þeir þyrftu að gefa mér ráð svo ég ákvað að koma nógu nálægt svo þeirra rödd fengi að heyrast,“ sagði Postecoglou.
,,Ég hefði vonast eftir því að eftir 18 mánuði þá mynduð þið í fjölmiðlum vita hver ég er. Mér er í raun alveg sama.“
,,Ef fólk heldur að ég sé auðvelt skotmark, ég ætla ekki að bakka úr mínu. Ég hef barist allt mitt líf og ég ætla ekki að hætta því eitthvað fólk í leikmannagöngunum er með sína skoðun. Það böggar mig ekki neitt.“