Noni Madueke, leikmaður Chelsea, er alls ekki pirraður út í þjálfara sinn Enzo Maresca eftir gagnrýni sem hann fékk á dögunum.
Maresca gagnrýndi Madueke fyrir leik gegn Southampton en hann vill meina að Englendingurinn sé oft ekki nógu duglegur né ákveðinn á æfingum.
Madueke hefur spilað stórt hlutverk undir Maresca á tímabilinu og átti góðan leik í 5-1 sigri gegn Southampton.
Madueke tók ekki illa í ummæli Maresca og virðist elska að vinna undir hans stjórn á Stamford Bridge.
,,Maresca er mjög hreinskilinn og segir sannleikann. Hann segir alltaf sannleikann og er manneskja sem þú getur treyst,“ sagði Madueke spurður út í ummælin.
,,Það er allt sem þú vilt frá þínum þjálfara. Hann er mjög skýr við alla leikmenn liðsins sem og sanngjarn. Það er það sem þú þarft hjá toppliði eins og Chelsea.“