Maður að nafni Harrison Clarke átti mögulega verstu frumraun sem byrjunarliðsmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en hann spilar með Ipswich.
Clarke er 23 ára gamall en hann hefur undanfarin tvö ár spilað með Ipswich og kom við sögu gegn Everton í 2-0 tapi þann 19. október.
Clarke fékk að byrja sinn fyrsta úrvalsdeildarleik um helgina gegn Brentford en leikurinn tapaðist 4-3.
Varnarmaðurinn átti hreint út sagt skelfilegan leik en hann skoraði sjálfsmark, fékk á sig víti og var þá rekinn af velli.
Clarke skoraði sjálfsmarkið undir lok fyrri hálfleiks, fékk á sig vítið á 49. mínútu og svo er um 20 mínútur voru eftir var hann rekinn af velli með tvö gul spjöld.
Ipswich tókst að jafna metin í 3-3 manni færri en fékk á sig sigurmark er 96 mínútur voru komnar á klukkuna.
Þetta var aðeins annar leikur Clarke í úrvalsdeildinni og þá hans fyrsti byrjunarliðsleikur á öllum ferlinum í efstu deild.