Iðkendatölfræði ÍSÍ fyrir árið 2023 er komin út. Samkvæmt tölfræði ÍSÍ voru flestar iðkanir í knattspyrnu árið 2023, eða rúmlega 30 þúsund, en næst þar á eftir kemur golf með rúmlega 27 þúsund. Þar á eftir koma fimleikar og hestamennska.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur gefið út tölfræði fyrir árið 2023 sem unnin var upp úr starfsskýrslum íþróttahreyfingarinnar, sem skilað var inn til sambandsins í ár.
Hægt er að sjá í Tölfræði 2023 yfirlit yfir iðkendur, skipt niður á íþróttahéruð og sérsambönd. Um er að ræða einstök gögn sem gefa gott og ítarlegt yfirlit yfir þróun íþrótta á Íslandi og umfang og samsetningu íþróttahreyfingarinnar.
Um 90% gagnanna, sem skilað er inn sjálfvirkt, eru send inn frá Abler, kerfi sem íþróttahreyfingin er að nota í sínum daglega rekstri.