Jamie Carragher hefur neyðst til að eyða tísti sem hann setti inn á Twitter eða X reikning sinn í gær.
Carragher fjallaði þar um leik Bournemouth og Arsenal þar sem William Saliba fékk að líta beint rautt spjald á 30. mínútu.
Saliba braut á framherjanum Evanilson sem var að sleppa einn í gegn og tapaði Arsenal leiknum að lokum 2-0.
Howard Webb, yfirmaður dómarasamtakana á Englandi, var staddur í stúkunni og sást í símanum er dómarar leiksins voru að taka ákvörðun.
Rob Jones, dómari leiksins, ákvað fyrst að gefa Saliba gult spjald en fór síðar í VAR skjáinn og breytti litnum í rautt.
,,Tók Howard Webb þátt í þessari ákvörðun að breyta spjaldi Saliba í rautt??“ skrifaði Carragher á Twitter og fékk mikið skítkast.
Eftir að hafa skoðað atvikið ákvað Jones að skipta um skoðun og eru litlar líkur á að Webb hafi átt hlut í því jafnvel þó hann hafi verið í símanum á meðan ákvörðunin var tekin.