Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var bálreiður í kvöld eftir leik sinna manna við Víkinga í Bestu deildinni.
ÍA virtist hafa skorað sigurmark á 94. mínútu en Elías Ingi Árnason dæmdi markið ógilt. Stuttu seinna skoraði Víkingur sigurmark í 4-3 sigri.
Jón Þór ræddi við Stöð 2 Sport eftir leikinn í kvöld og var hann alls ekki ánægður með frammistöðu dómarans.
,,Þetta er bara til skammar, þetta er til skammar. Fyrri leikurinn var tekinn frá okkur í sumar þar sem dæmt var á okkur ranga vítaspyrnu og rautt spjald,“ sagði Jón.
,,Hvar á ég að byrja, frá upphafi til enda, ömurleg dómgæsla sem hallaði á okkur. Hann raðar gulum spjöldum á okkur fyrir bakhrindingar og eitthvað kjaftæði en sleppir þeim.“
,,Þetta er svo augljóst, svo augljóst. Hann tekur sigurmarkið af okkur, það er brotið á Johannes fyrir sigurmarkið. Þetta er bara rán, þetta er bara viðbjóðslegt og ekkert annað.“