Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort Age Hareide haldi áfram starfi sínu eftir að landsleikjaglugganum í nóvember lýkur. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn 433.is.
Hareide framlengdi samning sinn við KSÍ snemma á þessu ári en á sama tíma var greint frá því að sambandið gæti rift samningum í nóvember.
Það var Vanda Sigurgeirsdóttir og hennar stjórn sem framlengdi samning Hareide, var talið rétt að setja inn ákvæði svo ný stjórn gæti tekið ákvörðun um framtíðar vegferð landsliðsins. Nú situr Þorvaldur Örlygsson í starfi formanns og mikið af nýju fólki er í stjórn.
Hareide hefur stýrt liðinu í eitt og hálft ár, árangurinn hefur á köflum verið góður en vantað stöðugleika í frammistöður og úrslit liðsins.
433.is sendi fyrirspurn á Þorvald Örlygsson formann KSÍ og fjölmiðlafulltrú sambandsins. Var spurningin svohljóðandi. „Uppsagnarákvæði er í samningi Age Hareide í næsta mánuði, hefur stjórn KSÍ rætt um málið og tekið ákvörðun hvort það verði virkjað eða ekki?“.“
Í svarinu kemur fram að þjálfaramálin séu alltaf í skoðun en engin ákvörðun liggi fyrir. „Það er rétt að í samningi þjálfara A landsliðs karla er uppsagnarákvæði, eins og fram hefur komið. Þjálfaramálin eru alltaf í skoðun. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að virkja uppsagnarákvæðið,“ segir í svari frá KSÍ.
Hareide tók við landsliðinu fyrir verkefni í júní árið 2023, hefur hann eins og forveri sinn í starfi þurft að eiga við það að lykilmenn hafa verið settir til hliðar eða verið meiddir.