Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Íslands, var nokkuð sáttur með stig gegn Wales í kvöld úr því sem komið var á Laugardalsvelli.
Wales komst í 2-0 hér heima í Þjóðadeildinni en íslensku strákarnir mættu grimmir til leiks í seinni hálfleik og jöfnuðu í 2-2.
Það var auðvitað stefna Íslands að vinna leikinn en að lokum var eitt stig niðurstaðan.
,,Þetta er skrítin tilfinning. Í hálfleik hefði verið gott að hugsa um stigið og jafna en við sköpum svo mikið í seinni og hefðum getað unnið þetta,“ sagði Hákon.
,,Mér leið mjög vel í leiknum, við sköpuðum færi og stöður í fyrri hálfleik og mér fannst þeir ekki gera neitt mikið. Ég fann á mér að við myndum skora í þessum leik.“
,,Það er bara eitt í stöðunni á mánudaginn og það er að vinna Tyrkina og þá þurfum við að spila eins og við gerðum í seinni hálfleik, að keyra yfir þá.“