Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands telur ólíklegt að Albert Guðmundsson verði kallaður inn í hópinn fyrir leikina gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
Hareide hefur ekki mátt velja Albert undanfarið út af reglum sem KSÍ setti um leikmenn sem eru undir grun um brot. Albert var hins vegar sýknaður af ákæru um kynferðisbrot í dag og mætti Hareide kalla hann inn.
„Ég hef ekki hugsað út í það, ég verð að spyrja út í reglurnar. Við verðum að ræða við KSÍ, við erum kannski of seinir. Það er kannski ómögulegt,“ sagði Hareide á fundi í dag.
Hareide segist í raun ekki hafa hugsað út í það hvort hann gæti kallað í Albert sem hefur verið magnaður hjá Fiorentina undanfarið.
„Við erum með niðurstöðu og við förum eftir því, ég hef ekki hugsað mikið út í þetta. Ég hef einbeitt mér að leikmönnum sem eru hérna og leikinn gegn Wales. Við verðum að meðtaka þessar fréttir.“