Valur tók á móti Stjörnunni í fyrri leik kvöldsins í Bestu deild karla. Um er að ræða leik sem er liður í 14. umferð þar sem þessi lið eru í Evrópukeppni í sumar.
Heimamenn voru betri í fyrri hálfleik og komust yfir á 35. mínútu með marki Jónatans Inga Jónssonar. Tryggvi Hrafn Haraldsson tvöfaldaði forskotið nokkrum mínútum síðar og staðan í hálfleik 2-0.
Tryggvi var aftur á ferðinni með mark á 54. mínútu og staðan orðin ansi vænleg fyrir Valsmenn. Hún varð enn betri þegar tuttugu mínútur lifðu leiks, en þá kom Patrick Pedersen Val í 4-0.
Skömmu síðar klóraði Örvar Eggertsson í bakkann fyrir Stjörnuna en Gísli Laxdal Unnarsson kom Val svo í 5-1 í restina.
Valur er í þriðja sæti með 18 stig en Stjarnan í því fjórða með 13.