Arnar Sveinn Geirsson, fyrrum leikmaður Vals og formaður Leikmannasamtakanna, segir áhyggjuefni hversu mikill munur er á Val með og án Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Gylfi gekk í raðir Vals í vetur og fór frábærlega af stað í Bestu deildinni. Nú glímir hann hins vegar við meiðsli í baki og hefur ekki verið með í undanförnum þremur leikjum.
Valur átti fremur ósannfærandi frammistöðu gegn FH um helgina, en liðin gerðu 2-2 jafntefli.
„Það er það sem mér finnst mjög vont, að liðið virðist standa og falla á því hvort Gylfi Sigurðsson sé með. Það virðist líta út fyrir það. Það er áfellisdómur að það sé staðan,“ segir Arnar Sveinn í Dr. Football.
Hann spyr sig hvað liðið myndi gera án Gylfa.
„Það var ekkert hundrað prósent að Gylfi hefði komið í Val. Hvað hefði gerst ef Valur hefði farið inn í mótið án Gylfa?“
Gylfi er kominn með þrjú mörk og eina stoðsendingu í Bestu deildinni það sem af er.