Í gær varð ljóst að Albert Guðmundsson yrði ekki í landsliðshópi Íslands fyrir komandi vináttuleiki gegn Englandi og Hollandi. Age Hareide landsliðsþjálfari mátti ekki velja hann samkvæmt reglum KSÍ.
Málið var til umfjöllunar á mbl.is í dag en þar kemur fram að fjarvera Alberts helgist af þröngri túlkun á óskýrum reglum KSÍ um það hvenær mál eru til meðferðar hjá lögreglu eða ákæruvaldi.
Albert var kærður á síðasta ári fyrir kynferðisbrot en eftir rannsókn var málið fellt niður. Litlar sem engar líkur voru taldar á sakfellingu. Niðurfellingin var hins vegar kærð og því mátti Hareide ekki velja Albert í hóp sinn fyrir komandi leiki.
Meira
Age Hareide var bannað að velja Albert í landsliðshópinn
Eftir því sem fram kemur í frétt mbl.is er Albert hins vegar laus allra mála í skilningi laganna, jafnvel þó niðurstaðan hafi verið kærð.
„Það er háð túlkun hvenær mál teljast vera til meðferðar eða ekki. Ég er fullmeðvitaður um það að strangt til tekið telja margir málið ekki lengur til meðferðar jafnvel þó niðurfelling hafi verið kærð. En sumir telja hins vegar að málið sé enn til meðferðar hjá viðkomandi,“ segir Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ, við mbl.is.
Hann segir jafnframt að ákvörðunin um að Hareide fái ekki að velja Albert byggi á viðbragðsáætlun sem samþykkt var af stjórn KSÍ fyrir tveimur árum.
Haukur segir þá að reglur sem KSÍ styðst við sæti endurskoðun en þær er á borði starfshóps innan KSÍ. Allir innan þess hóps standi utan sambandsins. Niðurstöður starfshópsins verða svo teknar fyrir á stjórnarfundi KSÍ.