Leikmenn Manchester United og fjölskyldur eru allt annað en sátt með að þurfa að borga sjálf fyrir ferðalag og miða á úrslitaleik enska bikarsins gegn Manchester City.
Mirror segir frá því að leikmenn hafi verið látnir vita í gegnum SMS að félagið myndi ekki borga undir fjölskyldur þeirra eins og venjan er. Er þetta þáttur í því að skera niður kostnað, sem nýi hluthafinn Sir Jim Ratcliffe hefur lagt mikla áherslu á.
United hefur boðist til að útvega box, eins og tíðkast að fjölskyldur leikmanna séu í á vellinum, en leikmenn þurfa hins vegar að greiða fyrir þau. Þá er ekki víst að allir komist að þar sem þeir vilja.
Það er óhætt að segja að leikmenn United ættu að eiga efni á því að borga undir fjölskyldur sínar á leikinn en þeir eru aðallega sagðir ósáttir með að hafa fengið að vita af þessu nýja fyrirkomulagi í gegnum smáskilaboð.
Leikur United og City fer fram á Wembley 25. maí.