Valur mætir Olympiakos í úrslitum EHF bikarsins í handbolta um helgina en um er að ræða fyrri leik liðanna. Valur bauð til blaðamannafundar í hádeginu í dag.
Einn af þeim sem tók til máls var Arnar Grétarsson þjálfari fótboltaliðs Vals en hann hefur mikla þekkingu af grískum íþróttum.
Arnar var lengi leikmaður í Grikklandi og starfaði svo síðar sem yfirmaður knattspyrnumála en í bæði skiptin hjá AEK Aþenu sem eru erkifjendur Olympiakos.
„Það er góð spurning, ég var þarna í nokkur ár og kynntist þessari geðveiki. Þeir hugsa með hjartanu en ekki hausnum þegar kemur að íþróttum, þeir hafa mikla ástríðu,“ sagði Arnar í samtali við Benedikt Bóas Hinriksson
„Þeir eru hógværari í Evrópuleikjunum en eru æstari þegar það eru grannaslagir.“
Arnar sagði svo hreint ótrúlega sögu af því þegar hann var leikmaður AEK Aþenu sem mætti Olympiakos
„Ein örstutt, ég var að spila sem leikmaður. Við erum að spila við Olympiakos heima, áhorfendur voru bannaðir. Ég spilaði ekki þennan leik og var fljótur í göngin eftir leik, við töpum 0-3,“ sagði Arnar
„Fyrir framan mig er agalegur spaði og maður með honum, svo eru myndavélar fyrir aftan mig. Þeir eru á leið í VIP herbergið og ég trítla með, ég vissi ekki fyrr en seinna að þetta var allt í beinni.“
Þegar inn í VIP herbergið var komið fór allt gjörsamlega úr böndum eins og Arnar segir frá.
„Svo opnast inn í VIP-ið og allt brjálað, þessir gæar labba inn og einn þeirra er hlæjandi. Það verður allt vitlaust, þeir byrja að kasta öskubökkum og grýta stólum í þetta. Gæinn sem stóð fyrir aftan hann tók upp byssu, þá er ráðist á hann. Áður en maður veit er kominn hnífur, hnífur í lærið á honum og allt í blóði. Þrjú skot upp í marmarann og þetta er allt í beinni.“
„Svo frétti maður eftir á, þá var þetta maður á vegum knattspyrnusambands Grikklands. Það fór fyrir brjóstið á mönnum eftir tapið að hann væri hlæjandi,“ sagði Arnar en tók fram að allir hefðu lifað lætin af .
Fyrri leikur Vals og Olympiakos fer fram í N1-höllinni á laugardag.