Knattspyrnugoðsögnin David Beckham segir að Erik ten Hag, stjóri hans fyrrum liðs Manchester United, eigi ekki að þurfa að gera mikið til að koma mönnum upp á tærnar fyrir úrslitaleik enska bikarsins gegn Manchester City.
United og City mætast í úrslitaleiknum á Wembley 25. maí og fær fyrrnefnda liðið tækifæri til að bjarga skelfilegu tímabili.
„Þú vonast til að stjórinn þurfi ekki að gera of mikið fyrir svona leik. Þetta er það sem að vera leikmaður Manchester United snýst um, að vera klár í að spila þessa stóru leiki,“ segir Beckham, sem spilaði 265 leiki fyrir United á sínum tíma.
„Þegar þú starfar við það sem þú elskar á ekki að skipta máli hvort um sé að ræða leik í deildinni eða úrslitaleik gegn nágrönnum þínum. Þú átt að vera klár. Ef ekki ertu í röngu liði og rangri íþrótt. Á mínum tíma skipti engum máli hver leikurinn var, hugarfarið var alltaf það sama.“