Það var stuð í Veislunni á FM957 í gær þar sem þeir Ágúst Beinteinn Árnason, betur þekktur sem Gústi B, Adam Ægir Pálsson og Patrik Atlason, eða Prettyboitjokko, voru í setti. Það var meðal annars spurt út í stöðu Adams í fótboltanum.
Adam er á mála hjá Val en hann hefur byrjað á varamannabekknum í öllum fjórum leikjum liðsins það sem af er af Bestu deildinni.
„Hver er staðan á þér í boltanum í dag?“ spurði Gústi.
„Hún er bara góð,“ svaraði Adam þá áður en Patrik tók til máls.
„Er ekki þægilegt að vera í úlpunni? Er ekki hitablásari á bekknum og svona?“ spurði hann.
„Jú, það er hitablásari. Það er allt til alls á Hlíðarenda. Ætlarðu að vera með þessa leiðinda orku í dag? Ég finn að þú ert eitthvað steiktur,“ svaraði Adam léttur.
Gústi greip þá í taumana.
„Adam, það er enginn að fela það að þú ert stundum á bekknum en það vita samt allir að þú ert bestur í Bestu deildinni.“