„Þetta sýnir að menn hafa trú á okkur, okkur hefur ekki verið spáð svona ofarlega undanfarin ár. Við tókum stór skref í fyrra og ætlum okkur að gera enn betur enn í fyrra,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar, eftir að hans mönnum var spáð 2. sæti í Lengjudeildinni í spá þjálfara, formanna og fyrirliða.
Magnús ræddi við 433.is á kynningarfundi deildarinnar í Laugardal í dag.
„Það gefur leikmönnum bara sjálfstraust að sjá að önnur lið eru hrifin af því sem við erum að gera og hafa trú á okkur. Við þurfum bara að nýta það þannig en þetta gefur okkur ekki neitt. Þetta verða 22 erfiðir leikir í sumar. Þetta er jöfn deild og það geta allir unnið alla.“
Aftuelding hafnaði í öðru sæti í fyrra en tapaði í úrslitaleik umspils um sæti í Bestu deildinni. Liðið ætlar sér að vinna Lengjudeildina í ár.
„Það segir sig sjálft. Við endum í öðru sæti í fyrra og viljum alltaf meira. Við viljum klára dæmið. Við höfum lagt mikið á okkur í vetur, strákarnir hafa æft frábærlega, ég er með frábært þjálfarateymi sem hjálpar mér að koma leikmönnum í stand. Ég tel að við séum gríðarlega vel undirbúnir og vonandi mun það sýna sig þegar í mótið er komið.
Við nýtum vonbrigðin í fyrra bara sem bensín. Auðvitað var sárt að tapa úrslitaleiknum í fyrra en við tökum það góða úr því sem við gerðum og nú viljum við bæta okkur enn meira. Við byrjuðum þá vinnu strax degi eftir úrslitaleikinn. Það voru tvær leiðir í þessu, leggjast niður og fara að gráta eða nota þetta sem bensín og gefa í,“ sagði Magnús.
Nánar er rætt við hann í spilaranum.