Jamie Carragher, goðsögn Liverpool, hefur í raun kallað eftir því að Darwin Nunez verði seldur í sumarglugganum.
Nunez átti ekki góðan leik gegn Everton í 2-0 tapi í gær en hann getur verið ansi mistækur fyrir framan markið.
Nunez er að spila sitt annað tímabil fyrir Liverpool en Carragher er á því máli að hann sé einfaldlega ekki nógu góður fyrir liðið.
,,Ég held að við þurfum að spyrja spurninga. Þú vilt að hann geri vel og það er svo mikið sem þér líkar við því hann gefur allt í verkefnið, hann hleypur og býr til vandræði fyrir andstæðinginn og nær í mörk og stoðsendingar hér og þar,“ sagði Carragher.
,,Þú horfir á hann í dag og svo eftir tvö ár, ég held að það verði ekki mikil bæting á honum, það sem við höfum séð síðustu tvö árin er það sem hann verður.“
,,Hann getur búið til vandræði og á það til að klúðra færum, ég held að það sé ekki nóg til að vinna stærstu titlana fyrir þig. Það þarf að taka stóra ákvörðun í sumar.“