Ralf Rangnick, fyrrum stjóri Manchester United og fleiri liða, staðfesti í dag að Bayern Munchen hafi rætt við sig.
Bayern er í stjóraleit en Thomas Tuchel er á förum í sumar. Rangnick er einn af þeim sem hefur verið orðaður við starfið.
Hann hefur ekki stýrt félagsliði síðan hann var hjá United 2022 en nú er hann landsliðsþjálfari Austurríkis.
„Bayern hefur haft samband við mig og ég lét austurríska knattspyrnusambandið vita. Hugur minn er nú á Evrópumótið með Austurríki,“ sagði Rangnick.
„Ef Bayern segist vilja mig mun ég þurfa að spyrja sjálfan mig hvort mig langi að fara þangað.“
Auk United hefur Rangnick stýrt liðum eins og RB Leipzig, Schalke og Stuttgart.