Erik ten Hag, stjóri Manchester United, hefur útilokað það að taka Brasilíumanninn öfluga Casemiro úr byrjunarliði liðsins.
Casemiro hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna mánuði en hann ku ekki vera sami leikmaður og hann var á síðustu leiktíð og hvað þá er hann lék með Real Madrid.
Ten Hag hefur þó enn fulla trú á Casemiro og mun halda áfram að nota hann svo lengi sem leikmaðurinn sé meiðslalaus.
,,Við þurftum á sexu að halda þegar ég kom hingað og hann var frábær á síðustu leiktíð,“ sagði Ten Hag.
,,Hann hefur held ég aldrei skorað eins mörg mörk og fyrir utan það var hann var svo mikilvægur fyrir okkur djúpur á miðjunni.“
,,Hann hefur glímt við meiðsli á þessu tímabili, meiðsli sem hann hefur aldrei glímt við áður en hann er sigurvegari og hefur verið allan sinn feril.“
,,Ég trúi því að hann muni gera sitt til að ná árangri með félaginu, ég veit að hann þarf fleiri leiki og verður betri. Ég hef fulla trú á þessum bardagamanni.“