Pétur Theódór Árnason hefur gengið til liðs við Gróttu frá Breiðabliki. Eins og kunnugt er var Pétur keyptur til Breiðabliks frá Gróttu eftir tímabilið 2021 en varð fyrir því óláni að slíta krossband þá um haustið.
Pétur lék því aðeins einn leik þegar Breiðablik varð Íslandsmeistari árið 2022 og spilaði svo með Gróttu á láni síðasta sumar. Liðþófameiðsli urðu til þess að Pétur spilaði ekkert seinni hluta tímabilsins í fyrra en fyrstu æfingarnar með Gróttu hafa gengið vel og það verður spenanndi að sjá hvort að framherjinn knái nái að láta ljós sitt skína í sumar.
Samkvæmt tölfræði á vef KSÍ er Pétur þriðji leikjahæsti leikmaður Gróttu frá upphafi og sá langmarkahæsti með 73 mörk. Það er hvalreki fyrir Gróttu að fá Pétur inn í hópinn því hann er ekki einungis góður leikmaður heldur ennfremur sterkur og traustur persónuleiki sem hefur jákvæð áhrif á umhverfi sitt.
Chris Brazell, þjálfari Gróttu, er ánægður að fá Pétur aftur heim: „Síðasta tímabil var strembið fyrir Pétur – hann var ekki nógu góður í hnénu og væntingarnar sem voru gerðar til hans voru sennilega ósanngjarnar. Nú byrjum við upp á nýtt. Honum líður vel og væntingarnar eru raunhæfari og skýrari. Við búumst ekki við því að Pétur sé sami leikmaður og fyrir 5 árum en trúum því að hann geti hjálpaði liðinu mikið á réttum augnablikum. En fyrst og fremst er Pétur frábær karakter með risastórt Gróttuhjarta og við erum himinlifandi að fá hann aftur á Vivaldivöllinn.”