Manchester United gæti notað Mason Greenwood upp í kaup á leikmanni Juventus í sumar. Gazzetta dello Sport segir frá.
Miðvörðurinn Gleison Bremer er leikmaðurinn sem um ræðir en miðvörðurinn hefur verið orðaður við United undanfarið.
Greenwood er sem stendur á láni hjá Getafe frá United. Hann á ár eftir af samningi sínum við enska félagið en ekki er talið að hann eigi framtíð þar vegna mála utan vallar.
Hann hefur átt góðu gengi að fagna með Getafe á leiktíðinni, er með átta mörk og fimm stoðsendingar í öllum keppnum.
Greenwood hefur verið orðaður við stórlið og þar á meðal Juventus. Því gæti farið svo að United noti hann til að krækja í Bremer.