Hjörvar var á veitingastað í Manchester eftir leik Manchester United og Liverpool um síðustu helgi. Með honum í för var hlaðvarpsstjarnan Theodór Ingi Pálmason, Teddi Ponza.
Þeir voru saman á leiknum fyrr um daginn en þar átti sér stað umdeilt atvik þegar þegar Mohamed Salah jafnaði úr vítaspyrnu fyrir Liverpool sem Harvey Elliot hafði krækt í. Leiknum lauk 2-2.
„Teddi Ponza var að segja mér að það væri komið nýtt myndband af Harvey Elliot, það hafi ekki verið komið við hann. Ég pældi ekkert í þessu en við röltum svo niður að móttökunni. Þá labbar upp í hendurnar á 120 kílóa Ponzu Harvey litli Elliot,“ sagði Hjörvar í þættinum.
„Þetta var eins og Danny DeVito að mæta Arnold Schwarzenegger. Ég veit að Teddi Ponza er ljúfa tröllið svo ég hafði engar áhyggjur af þessu. En hann var þarna í Manchester United búningnum sínum með Harvey Elliot beint fyrir framan sig.
Ponzan fer beint í að spyrja hann hvort það hafi verið komið við hann. Hann svaraði bara: „Fyrirgefðu. Ég þarf að gera það sem gera þarf.“ Hann var mjög næs. Ponzan sagði bara: „Ekkert mál, mig langaði bara að spyrja þig.“ Ponzan og hann skildu eins og bestu vinir,“ sagði Hjörvar enn fremur og hló.