Stuðningsmenn Liverpool eru æfir yfir miðafjölda sem félagið fær úthlutað á úrslitaleik Evrópudeildarinnar, komist liðið þangað.
Leikurinn fer fram á Aviva-leikvanginum í Dublin, sem tekur um 48 þúsund manns í sæti.
Liverpool þykir líklegasta liðið til að vinna keppnina nú þegar 8-liða úrslit eru að hefjast. UEFA hefur tekið ákvörðun um að Liverpool fái 12 þúsund miða til að úthluta til stuðningsmanna liðsins ef það fer í úrslitaleikinn.
Enskir miðlar vekja athygli á reiði stuðningsmanna Liverpool vegna þessa.
„Þetta er fáránlegt,“ skrifaði einn netverjinn og margir tóku undir.
Liverpool mætir Atalanta í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudag. Fer þessi fyrri leikur liðanna fram á Anfield.