Kylian Mbappe væri í dag leikmaður spænska stórliðsins Barcelona ef maður að nafni Javier Bordas hefði fengið einhverju ráðið árið 2017.
Bordas var yfirmaður knattspyrnumála Barcelona á þessum tíma og reyndi sitt besta til að sannfæra félagið í að kaupa Mbappe frá Monaco.
Stjórn Barcelona horfði hins vegar annað og ákvað að taka inn Ousmane Dembele, landa Mbappe, frá Dortmund í Þýskalandi.
,,Ef ég hefði verið við stjórnvölin þá væri Mbappe leikmaður okkar í dag,“ sagði Bordas.
,,Ég reyndi að fá hann inn, hann hefði komið til Barcelona. Við ræddum ekki neinn ákveðinn verðmiða en hann var fáanlegur fyrir 100 milljónir evra.“
,,Stjórnin sagði okkur að þeir vildu fá inn Dembele vegna annarra leikmanna sem við vorum með. Þeir taka ábyrgð á þessu.“