Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, ætti að hugsa sig verulega um áður en hann velur markmenn enska liðsins á EM í sumar.
Þetta segir skoska goðsögnin Kenny Miller en hann vill meina að Jack Butland eigi klárlega heima í enska landsliðshópnum.
Butland er leikmaður Rangers í Skotlandi og hefur staðið sig frábærlega í vetur en var samt sem áður ekki valinn í landsliðshóp Englands í síðasta mánuði.
Miller er á því máli að Butland sé betri en aðalmarkvörður Englands, Jordan Pickford, sem leikur með Everton.
,,Þetta val er ansi augljóst fyrir mér, þú horfir á þessa markmenn sem Southgate er með í boði,“ sagði Miller.
,,Hver er að spila vel og hvernig karakter býr í þessum mönnum? Butland er vel þekktur á meðal þeirra sem hafa deilt búningsklefa með honum.“
,,Ég er mjög vonsvikinn að hann hafi ekki fengið tækifæri á að komast aftur í landsliðið. Það var í raun gefið að hann yrði hluti af hópnum.“
,,Hann er alveg jafn góður og Pickford og ég myndi ekki velja Pickford yfir Butland en það er aðalmarkvörður landsins í dag.“