Miðjumaðurinn Bjarni Mark Duffield hefur gert samning við Knattspyrnufélagið Val um að leika með félaginu næstu þrjú árin. Bjarni sem er 28 ára gamall kemur til Vals frá Start í Noregi þar sem hann hefur leikið síðustu fimm árin. Bjarni segir ákvörðunina um að koma í Val fyrst og fremst vera fótboltalegs eðlis.
„Þegar klúbbur með svona gott lið og þennan metnað sýnir áhuga þá lít ég á það sem ákveðna viðurkenningu fyrir mig. Það var mjög skýrt frá félaginu að þeir vildu fá mig í ákveðið hlutverk sem skiptir mig líka máli. Ég fann að þeir voru að horfa á mig sem persónu og karakter en ekki bara sem fótboltamann,“ segir Bjarni Mark Duffield sem lýsir sjálfum sér sem kraftmiklum leikmanni með mikinn metnað.
„Ég tel mig vara ákveðinn karakter og ég vil vinna auk þess sem ég er all around góður í fótbolta. Ég mun gera það sem mér er sagt en aðallega einbeita mér að því að dekka réttu svæðin.“
Koma Gylfa skipti máli
Bjarni segir að leikmannahópur Vals sé með þannig gæði að möguleikarnir til þess að gera vel séu svo sannarlega til staðar.
„Til dæmis það að fá Gylfa Sigurðsson til liðsins er risastórt og hjá mér var það alveg faktor í því að ég ákvað að koma í Val. Ég hef verið mikill aðdáandi Gylfa sem fótboltamanns og það að fá að upplifa það að æfa og spila með svona hæfileikaríkum leikmanni verður afar spennandi.“
Valur leikur sinn fyrsta leik í kvöld gegn Víkingum í „Meistarar Meistaranna“ og ætlar Bjarni að sjálfsögðu að mæta á völlinn.
„Það var ein ástæða þess að ég dreif mig strax heim því ég vil vera viðstaddur fyrsta leikinn. Tímabilið er einmitt að byrja í Noregi í dag og ég hef verið að æfa mjög vel og er í toppstandi. Ég get ekki beðið eftir því að mæta á mína fyrstu æfingu og verða hluti af þessu frábæra félagi.“
Arnar Grétarsson þjálfari Vals er ánægður með komu Bjarna sem hann segir passa vel inn í það sem þjálfarateymi Vals er að hugsa.
„Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur Valsmenn að fá Bjarna á Hlíðarenda, góður leikmaður sem gerir liðið og hópinn enn sterkari fyrir komandi átök. Áfram hærra,“ segir Arnar Grétarsson þjálfari Vals.