Guðmundur, eða Gummi Ben eins og hann er gjarnan kallaður, lýsti einnig undanúrslitaleiknum gegn Ísrael. Þar fór sonur hans, Albert Guðmundsson, á kostum og skoraði þrennu.
„Þetta segir ýmislegt um smæð okkar þjóðar og var skemmtilegt,“ sagði Hörður Snævar Jónsson í hlaðvarpi Íþróttavikunnar.
„Hann fór víst í viðtal við BBC eftir leik og var spurður út í Albert meðal annars. Hann þurfti að útskýra í miðju viðtali að hann væri jú faðir drengsins,“ sagði Helgi léttur í bragði, en hann var í Búdapest á leiknum gegn Ísrael sem og Guðmundur.
Guðmundur hefur lengi verið einn allra fremsti íþróttalýsandi Íslands. Hann öðlaðist þá heimsfrægð þegar hann lýsti leikjum karlalandsliðsins á EM 2016.
„The crazy commentator. Hann hefur hrifið land og þjóð frá því á EM í Frakklandi,“ sagði Hörður.
Leikur Íslands og Úkraínu annað kvöld hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma. Hann fer fram í pólsku borginni Wroclaw en ekki Úkraínu vegna stríðsins þar.