Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Wroclaw
Ísland mætir Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM annað kvöld. Sverrir Ingi Ingason sat fyrir svörum ásamt Age Hareide landsliðsþjálfara á blaðamannafundir í dag og var spurður að því hvort þetta væri stærsti leikur á hans ferli, þó svo að hann hafi verið hluti af hópi Íslands sem fór á EM 2016 og HM 2018.
„Það er alveg hægt að færa rök fyrir því. Ég var í öðruvísi hlutverki þegar við fórum á þessi mót og var að stíga mín fyrstu skref með landsliðinu. Ég veit að það hjálpaði mér mikið á þeim tímapunkti á ferlinum og það myndi gefa fullt af leikmönnum sem eru að taka sín fyrstu skref, eins og ég var á þeim tíma, að komast enn þá lengra á stuttum tíma,“ svaraði Sverrir.
„Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila sem fótboltamaður. Allt undir og fullur völlur, spila upp á eitthvað sem skiptir öllu máli. Við erum fullir sjálfstrausts og við verðum fyrst og fremst að hafa trú á því sjálfir að við getum gefið Úkraínumönnum góðan leik á morgun.“
Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 19:45 annað kvöld.