Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Albert Guðmundsson sýndi eina bestu frammistöðu sem einhver hefur sýnt í íslenskri landsliðstreyju þegar hann skoraði þrennu í 4-1 sigri á Ísrael. Þar með komst Ísland í hreinan úrslitaleik við Úkraínu um sæti á EM í sumar.
Nokkrir leikmenn íslenska liðsins ræddu þessa frammistöðu Alberts eftir leik.
„Hann er ótrúlegur leikmaður, ótrúlegur í fótbolta. Hann hefur sýnt það margoft. Þetta kemur engum á óvart í hópnum,“ sagði Arnór Ingvi Traustason og nafni hans Arnór Sigurðsson tók undir.
„í raun kom þetta ekki á óvart. Við vitum allir hvað Albert getur í fótbolta og þegar hann er á sínum degi getur hann gert hluti eins og í dag.“
Bakvörðurinn Guðmundur Þórarinsson samgladdist Alberti eftir frammistöðuna.
„Ég veit ekki hvað ég á að segja, bara geggjaður leikmaður. Það er frábært fyrir okkur að fá hann aftur. Það eru svo mikil gæði í honum, hann er svo góður í fótbolta og það er svo mikilvægt fyrir okkur að hafa svona góða menn. Við erum með marga sem eru góðir í fótbolta og hann smellpassar inn. Ég er virkilega glaður fyrir hans hönd.“
Meira
Rússíbanareið Alberts: Útilokaður, tekinn inn á ný, útilokaður aftur og nú á hátindi ferilsins